31.1.08

FRÉTTIR og MYNDIR

Það er orðið svo langt síðan að eitthvað hefur nýtt birst hérna að nú verður aldeilis að taka á því. Þau hérna niðurfrá eru meira að segja búin að koma með færslu. Ótrúlegt en satt. Meira að segja með skemmtilegum myndaþætti. Það er best að segja frá einhverju sem hefur drifið á dagana okkar hérna. Við getum byrjað á gömlum fréttum og sagt frá tónleikarápi okkar. Við Valgeir skelltum okkur nú fyrir áramótin á tónleika með Sex Pistols inni í London. Þeir voru haldnir í Brixton Academy sem er í þægilegri akstursfjarlægð frá okkur. Við erum rúman klukkutíma að krúsa þarna inneftir. Á undan spilaði eitthvað "new hype" band sem var alveg hundleiðinlegt. Gömlu kallarnir voru samt alveg skemmtilegir þegar þeir loksins byrjuðu. Sándið var alger hörmung og vorum við svolítið hissa á því. Fyndið að sjá þá spila, gítarleikarinn er orðinn spikfeitur og þurfti að teygja sig til að ná fram á gítarinn sem lá framan á bumbunni á honum. Þeir eru með gamla bassaleikarann sem þeir ráku til að koma dópistaruslinu honum Sid Vicious að, en sagan segir að hann (þessi gamli) hafi samið megnið af stöffinu þeirra. Það heyrðist nú eiginlega ekkert í honum en hann lúkkaði alveg sannfærandi. Við gömlu hjónin fórum síðan á annan konsert á sama stað kvöldið áður en við flugum upp til Íslands í jólafríið. Við fórum til að kíkja á The Pogues sem er búið að vera eitt af uppáhalds hjá mér síðan átjánhundrog epli.. eða eitthvað. Söngvarinn þeirra Shane McGovan er fyllibytta og dópisti en alger snillingur. Hann náði að koma prógramminu sæmilega frá sér, en maður heyrði að S hljóðin hans eru farin því að það vantar í hann megnið af framtönnunum. Það var greinilegt að það er spenna í gangi á milli hans og eins annars í bandinu því sá var alltaf skjótandi á hann fyrir fylleríið og aumingjaskapinn. Hann mundi reyndar alveg textana, en það kom alveg fyrir að hann kynnti vitlaust lag og uppskar þá skæting frá félaganum fyrir vikið. Svo fór hann nokkrum sinnum af sviðinu og þá staulaðist hann eins og gamall maður kominn að fótum fram. En músíkin maður, þetta er svo flott stöff og þvílíkir "Vírútósar" eins og Bubbi myndi segja, sem eru í þessu bandi. Þeir skiluðu því mjög flott og sándið var meira að segja bara alveg sæmilegt. Hápunkturinn var síðan þegar þeir tóku lagið Fairytale of New York. Til aðstoðar var dóttir eins úr bandinu til að syngja partana hennar Kirsty McColl, sem varð óvart fyrir því óláni að fá hraðbát í hausinn og deyja af þeim sökum fyrir nokkrum árum. Við vorum komin aftur heim upp úr miðnætti og svo þurftum við að vakna snemma um morguninn eftir til að keyra upp á Stansted flugvöll til að fljúga heim. Þetta gekk nú allt mjög vel fyrir sig.

Eftir að við komum út aftur eftir áramótin höfum við aðeins hreyft okkur. Við fórum til Folkestone um daginn, en það er bær sem er hérna niður við ströndina vestan við Dover. Þar er skemmtileg strönd og risastór krakkakastali til að leika sér í. Ætluðum varla að ná krökkunum út fyrir myrkur. Helgina eftir fórum við þangað aftur og þá með Ingibjörgu, Bjarka og Bryndísi með okkur.

Síðan fórum við inn í London á sunnudaginn því Valgeir átti fermingarfræðslutíma. Við hin dúlluðum okkur í Hyde Park á meðan. Á myndinni má sjá Kötlu cosmopolitan á línuskautunum sínum í Hyde Park (og vel á minnst, það er hægt að stækka myndirnar með því að smella á þær). Síðan var messa hjá íslenska söfnuðinum í sænsku kirkjunni í Englandi á eftir. Við höfum ekki verið mikið að hitta fólk sem við þekkjum á förnum vegi hérna af eðlilegum ástæðum, en í þessari messu hittum við hann Fiffa frá Ísafirði. Eins og allt alvöru fólk veit er hann sonur Evu danskennara og Steina kokks. Hann er að læra ljósahönnun hér í Englandi og tók að sér að vera með barnastarfið hjá íslenska söfnuðinum meðfram því. Duglegur strákur hann Fiffi.

Valgeir er aldeilis lukkulegur þessa dagana, hann fékk svo flotta jólagjöf að það slefa bara allir í kring um hann. Það var látið eftir honum að fá trommusett inn á heimilið. Þar með var friðurinn úti. Nágrannarnir alveg brjálaðir því trommuslátturinn glymur um allt hverfið og truflar alla þar. Nei djók. Við höfðum vit á því að kaupa rafmagnssett sem hægt er að hlusta á í heddfón. Hins vegar heyrist svolítið í bassatrommufetlinum þegar hann er að tromma. Hann er í trommutímum í skólanum og er búinn að vera síðan snemma í haust. Hefur bara æft sig með því að tromma á koddann sinn og jú líka eiginlega allt sem á vegi hans verður, þannig að þetta er ágæt lausn. Hrafnkell hefur fundið sér viðfangsefni í tölvuleiknum World of Warcraft sem hann fékk í jólagjöf frá bróður sínum. Það er svo mikið að gera hjá honum í leiknum að hann hefur ekki tíma fyrir blogg, sem er alger synd því það byrjaði svo vel hjá honum.

Heimsóknir

Nú og svo erum við að fá heimsókn núna á mánudaginn en þá eru Lilja systir Svövu og Hilmar kallinn hennar að koma til okkar. Systkini Svövu hafa aðeins verið að koma við hjá okkur, Fríða er búin að koma einu sinni og Didda og Gummi líka og svo Valur og Ása. Mér finnst það ekki neitt svo mikið, systir mín heimsækir okkur t.d. oft í viku. Svo komu Dóri og Dagný við hjá okkur og fengu að gista á leið sinni frá Skotlandi til Þýskalands. Þau áttu bíl uppi í Skotlandi og ákváðu að sækja hann og koma honum til manna. Fóru á sýningu í Þýskalandi og keyrðu bílinn síðan áfram til Svíþjóðar, sem Dóri segir að sé æðislegasta land í heimi. Hmm?

Nú og svo erum við að skoða það núna að fara til Sviss í skíðaferð í vor. Krakkarnir eiga löng skólafrí og við ætlum að nota páskafríið til þess að krúsa þarna niður eftir. Ingibjörg og fjölskylda kemur með og ætlum við að leigja okkur fjallakofa og hafa það kósí í heila viku þarna niðurfrá. Við erum svooo farin að hlakka til.

Góðar stundir.

V.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gaman að fá smá fréttir frá ykkur og að skoða svona skemmtilegar myndir af svona sætu fólki ;) en vá hvað ferðin ykkar til Sviss hljómar spennandi, væri alveg til í að vera að fara í eina svona ferð.
Kv Didda

Nafnlaus sagði...

Svona á þetta að vera..njóta þess út í ystu æsar að búa í útlöndum og nýta það sem er í boði.
En Svava ég þarf nauðsynlega að heyra frá þér, sendu mér póst á Eyrarskjól.

Friðþjófur sagði...

Ekkert smá magnað að fá umfjöllun! Annars er http://fif.fi/blog mun skemmtilegri síða en fif.fi ;)

Kveðja,
Fiffi