17.7.08

Rhodos




























Eins og áður hefur komið
fram hér á blogginu erum við gömlu hjónin að spóka okkur í sólinni á Grikklandi. Við sendum börnin heim til Íslands áður en við fórum svo við þyrftum ekki að hafa þau hérna með okkur sem hefði að sjálfsögðu verið mun dýrara. Í staðinn getum við leyft okkur meira hérna, farið dýrara út að borða og keypt okkur dýrari afþreyingu. Þau borða hins vegar bara súrsuð svið og rauðmaga hjá afa og ömmu á Suðureyri. Nei, þetta er nú smá grín. Við söknum þess heilmikið að hafa þau ekki hjá okkur hérna. Það var sama hvað við reyndum, þau vildu miklu frekar fara heim á Suðureyri á Sæluhelgi. Nú setjum við nokkrar myndir af okkur hér inn á síðuna til að allir geti nú séð hvað við höfum það annars gott hér í sólinni. Við förum síðan til baka til Englands á Laugardagskvöld og verðum síðan í Canterbury í tvo daga og leggjum af stað keyrandi til Skotlands á mánudag. Við tökum svo ferjuna í Skotlandi aðfaranótt miðvikudags. Þannig að það styttist í að við verðum komin á kaldan klaka. Bestu kveðjur.

4.7.08

Síðustu dagarnir í Kantaraborg










Vá. Það er búinn að vera geðveikur hasar hjá okkur og því lítill tími fyrir report. Það er hægt að mæla að það sé komið of langt frá síðasta fréttatíma þegar Didda fer að kvarta.
Amma og afi á Suðureyri eru búin að vera í heimsókn, voru frá 19. til 30. júní. Með þeim komu Benóní og Pétur Óli. Björn Ægir kom svo nokkrum dögum seinna. Þegar þau fóru heim kom Fríða Bára og með henni Ágúst Orri og Ástrós Þóra. Þau verða hérna til 9. júlí og þá fara krakkarnir með þeim heim og Bryndís líka. Það verður því fjör hjá Fríðu í flugvélinni.
Venni fór líka heim á klakann sama dag og amma og afi til að fara í smá starfskynningu á Ísafirði. Hann er kominn með nýtt djobb fyrir vestan, verður stöðvarstjóri í Funa. Hann er alveg í rusli yfir því hehe, nei djók. Hann kom heim núna áðan og rétt náði að sækja Kötlu í skólann síðasta skóladaginn hennar.
Mamma var búin að kaupa ís fyrir krakkana og við áttum smá kveðjumóment þarna með krökkunum og kennurunum þar uppfrá.
Nú eru bara allra síðustu dagarnir framundan, þurfum að fara að pakka dótinu og svoleiðis. Meira fljótlega.

17.6.08

Hæ, hó jibbí jei - Það er kominn 17. júní.






















Litla stelpan okkar hún Katla Vigdís á afmæli í dag og er orðin 6 ára gömul.

Þetta er reyndar frekar skrítinn afmælisdagur fyrir hana þar sem hún mætti í skólann í dag, ekkert víðavangshlaup og enginn hefur enn sem komið flaggað fyrir henni. En við ætlum þó að reyna að hafa þetta skemmtilegan dag fyrir hana og var hún vakin upp snemma í morgun og sungið fyrir hana og henni færðar kökur í rúmið. Bræður hennar voru svo sætir í sér að þeir gáfu henni hlaupahjól en frá pabba og mömmu fékk hún loksins sitt fyrsta tvíhjól. Hún var ekkert smá ánægð með þessar gjafir. Eftir skóla ætlum við að gera eitthvað skemmtilegt saman og fara svo út að borða með skvísunni.

Á laugardaginn hélt hún upp á afmælið sitt og bauð öllum krökkunum í bekknum og síðan auðvitað líka Bryndísi frænku. Það var því mikið fjör hjá okkur þennan dag enda bæði trambólín og hoppukastali útí í “stóra” garðinum. Katla Vigdís fékk fullt af flottum gjöfum og þegar afmælið var búið þá færði hún öllum krökkunum smá gjöf í poka, en það er hefð hér.

Eftir afmælisveisluna skelltum við okkur í tívólí sem var staðsett á túninu við hliðina á leikskólanum sem ég vinn á.
Á sunnudeginum fórum við síðan í hjólaferð og var það einnig mjög skemmtilegt.

Það hefur því verið nóg að gera um helgina enda verið að njóta þessara síðustu vikna í botn.

En endilega óskið Kötlu Vigdísi til hamingju með afmælið hér á síðunni, það myndi gleðja hana.

25.5.08

Skemmtilegir dagar!!

Jæja núna er best að ég fari að blogga svolítið. Það virðist enginn lesa bloggið hjá Venna, eða alla vega eru fáir sem taka þátt í spurningarkeppninni hans. En um að gera að reyna.

Við erum búin að fá alveg frábæra daga hérna úti, sól og 25 – 30 siga hita og við höfum notið þessara daga í botn. Reyndar er það nú svo að í leikskólanum hjá mér þarf ég samt sem áður að klæðast þessari forljótu skyrtu og svörtum ömmubuxum. Það er sko ekkert hægt að pæjast í vinnunni. En því miður eru þessir dagar liðnir og tjallarnir tala um að þar með sé sumarið búið og rigningin tekin við, en ég vona nú að það verði nú ekki svo slæmt.


Jóna Magga og Ólína Halla voru í heimsókn hjá okkur um daginn og rétt misstu af þessu frábæra veðri, en fengu samt ágætis vorveður þessa daga sem þær voru hjá okkur. Katla Vigdís var auðvitað alveg í skýjunum yfir því að fá frænku sína og vinkonu í heimsókn. Loksins kom einhver krakki í heimsókn til okkar sem hægt væri að leika við. Þær stöllur skemmtu sér vel saman og auðvitað Bryndís líka, en ég held að henni hafi ekki síður þótt það skemmtilegt að fá einhvern leikfélaga sem talar íslensku. Við vorum dugleg að sýna þeim mæðgum bæinn og í leiðinni var verslað smá. Einnig fórum við að skoða Howlett dýragarðinn, en þar eru m.a. apar, ljón, nashyrningar og fílar, svo eitthvað sé nefnt. Við vorum mjög heppin með veðrið þennan dag, sól og hiti.

Á sunnudeginum keyrðum við um svæðið, m.a fórum á ströndina hjá Folkestone, og skoðunum hvítu klettana hjá Dover og St. Margaret’s bay, en það er mjög fallegur staður við sjóinn. Þennan dag og enduðum við síðan að sýna þeim Sandwich, “fyrirheitna staðinn” eða staðinn sem vildi okkur ekki eins og Hrafnkell segir. Þar fengum við okkur að borða á frábærum Ítölskum veitingastað sem heitir Bella Amalfi, sem heitir eftir bænum á Ítalíu þar sem við keyptum hringana okkar forðum daga. Voða rómó.
Þetta voru skemmtilegir dagar sem liðu fljótt og átti Katla Vigdís svolítið erfitt með að kveðja. En tíminn líður fljótt og brátt verður þetta viðburðarríka ár okkar í Englandi á enda, í raun eru bara nokkrar vikur eftir.



Erum við nú að skipuleggja þessar fáu helgar sem eru eftir, því ekki viljum við koma heim án þess að hafa séð alla þá staði sem við ætluðum okkur að sjá, eigum t.d. enn eftir að sjá vaxmyndasafnið og fara í London Eye. Síðan verður alveg brjálað að gera í heimsóknum í júní, sem er alveg frábært að svona margir ætla að koma og heimsækja okkur, það verður að segjast eins og er að það er nánast orðið fullbókað (spurning að koma fyrir dýnu í baðinu og láta einhvern gista þar, enda erum við með þrjú klósett í húsinu sem er alveg óþarfi).

Gleymdi reyndar að segja frá einni örheimsókn sem við fengum, hver önnur en Áslaug frænka og Arnar, þau skruppu í kaffi til okkar frá London og ég held að ég hafi náð að hitta þau í tvær klst. Já svona á að gera þetta, allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Það var auðvitað alveg frábært að hitta þau.
Nóg hefur verið að gera um helgina, fullt hús af vinum strákanna og einn fékk að gista. Það er alveg meiriháttar hvað allt gengur vel hjá krökkunum og hvað þeim hefur tekist að eignast vini hér og standa sig vel í skólanum. Ég er svakalega stolt af þeim öllum.
Læt þetta duga í bili og takk fyrir allar kveðjurnar í gestabókinni.
Kv. SRV

18.5.08

Pop Quiz 2

Jæja, það virðist enginn ætla að hafa þetta. Þá kemur hér önnur spurning. Við Bjarki fórum í gærkvöldi á aðra tónleika. Þeir voru haldnir hér inni í London, í þúsaldarhvelfingunni eða hvað þeir nú kalla þetta. Þetta er skásta myndin sem ég náði af bandinu sem við fórum að heyra. Og hvert er nú svo bandið?
Þið fáið meira að segja tóndæmi líka.
Þessi er alveg ógeðslega erfið. Ég veit það.

13.5.08

Pop Quiz

Hér er búin að vera þvílíka veðurblíðan. Gaman að segja frá því.
En við fórum á tónleika í gær. Gömlu hjónin og Valgeir. Spurt er: Hver er hljómsveitin? (mynd til hliðar, smellið á til að stækka).
Nú kemur í ljós hversu vel þið eruð að ykkur í poppfræðunum. Svar óskast í athugasemdakerfið. Ekki vera feimin.
Þegar svarið er komið kemur alveg massíft öppdeit frá okkur.
Góðar stundir.

15.4.08

Skíðaferðin

Þetta var alveg geeeeðveikt gaman þarna í Sviss. Fengum æðislegt veður mest allan tímann og færið var líka gott. Allavega fram að síðustu tveimur dögunum. Húsið sem við vorum í var staðsett alveg við hliðina á braut sem lá niður að stólalyftu sem flutti okkur upp á svæðið, þannig að það var lítil fyrirhöfn að koma sér af stað. Við vorum á svæði sem heitir Thyon og er austasti hluti svæðisins sem þeir kalla Dalina fjóra. Vestasti hlutinn er Verbier og þar á milli Nendaz og einn annar sem ég man ekki hvað heitir. Hægt er að renna sér á milli allra þessara svæða, en það er hins vegar heilmikið ferðalag svo að við létum það nú bara eiga sig. Við vorum hins vegar tvo daga í Nendaz, keyrðum yfir í bæinn og tókum kláf upp á svæðið. Þar fengum við besta veðrið í túrnum. Það sem verra var að það vildi enginn fara "heim" aftur. Allir vildu vera lengur í Sviss, enda landið ótrúlega fallegt, eða fara heim til Íslands. En tíminn okkar hér í Englandi styttist óðum, og í dag er sól og hiti. Katla Vigdís leikur sér úti í garði léttklædd.


Myndirnar tala sínu máli.