9.12.07

Jóla hvað

Þarna göbbuðum við ykkur svakalega. Komum aftur að vörmu, haha, engin nenna til að blogga neitt. Nema hvað. Nú er orðið jólalegt í Kantaraborg, seríur og ljósahreindýr eru farin að birtast víða. Það er þó enginn sem toppar okkur íslendinga, þegar kemur að ljósaskreytingum, við eigum örugglega met í því eins og í svo mörgu öðru. Það er ekki laust við að maður sakni þess núna. Miðað við Ísland er þetta nú heldur klént hjá Englendingum, og smekkvísin er ekki alltaf mikil. En að sjálfsögðu er mjög notalegt að hafa jólaljósin og minnir það okkur á hvað það er orðið stutt þar til að við förum heim. Það eru allir farnir að telja niður.

Þó svo að okkur finnist ekkert endilega vera skreytt mikið utandyra hjá fólki, þá er fólk búið að skreyta allt inni hjá sér. Katla fór í heimsókn til vinkonu sinnar í dag, og hún var alveg í sjokki þegar við sóttum hana, "mamma það eru bara komin jólin hjá Jade, jólatréð er komið upp og það eru meira að segja jólapakkar undir trénu". Ja hérna, það er ótrúlegt hvað fólki liggur á, það hlýtur að þurfa að hrista rykið af trénu þegar jólin loksins koma, eða þá eru kannski allir búnir að fá nóg af þessu tré, og búnir að henda því út, hver veit? Reyndar er sagt að allir hangi síðan á pöbbnum yfir jólin, en veit nú ekki hvort að ég eigi að trúa því, en það er þó alveg víst að Englendingar umgangast áfengi öðruvísi en við. Um daginn var jólabasar og hlutavelta í skólanum hjá Kötlu, og meðal vinninga vöru áfengisflöskur. Þætti nú ekki við hæfi heima, væri skemmtilegt ef eitthvað barnið ynni nú flöskuna, spurning hvort að það fengi þá ekki líka að drekka úr henni. Þetta minnir mig nú reyndar á það þegar Valur bróðir vann sígarettukarton, þá 11 - 12 ára gamall á fjölskylduskemmtun hjá Sumargleðinni í den. Lengi vel hafði hann pakkann uppstilltan í herberginu sínu, þetta var jú hans vinningur, þannig að það kom ekki til greina að taka hann af honum. Ég veit nú ekki lengur hvað varð um kartonið, en allavega varð það ekki til þess að Valur byrjaði að reykja, nema þá að hann hafi reykt kartonið og fengið nikótínspítt fyrir lífstíð?

Strákarnir höfðu sömu sögu að segja úr sínum skóla, en þar voru krakkarnir hvattir til að koma með áfengi í skólann, til að hafa á jólabasarnum. Valgeir sagði að það hefði verið frekar skondið þegar krakkarnir voru að draga flöskurnar upp úr skólatöskunum, og við erum ekki bara að tala um létt vín, Valgeir sagði að einn hefði komið með rísa stóra flösku af Smirnoff, (veit reyndar ekki hvernig hann þekkir það humm). Það er þó aldrei að vita nema við smyglum inn íslensku kláravíni, þegar við komum aftur, og sendum strákana með það í skólann. Annars vill Hrafnkell alls ekki taka þátt í þessu, hann segir að þessi skóli sé alltaf að betla peninga.

Katla er farin að spá í því hvort að íslenski jólasveinninn komi hingað, og þá hvernig hann komist, ég hef nú ekki trú á öðru en að hann geri það, enda er Katla svo stillt og góð stúlka og Bryndís frænka hennar er nú líka hérna í sömu götu, þannig að hann hlýtur að gera sér ferð hingað. Ég mun allavega hvetja hana til þess að setja skóinn út í glugga þann 11. des.

Reyndar eru Katla og Bryndís nú þegar búnar að hitta íslenskan jólasvein á jólaballi sem þær fóru á í London, en íslendingafélagið sá um ballið, þannig að það var ekkert mál að redda íslenskum jólasveini á staðinn. Katla Vigdís skemmti sér svaka vel á jólaballinu og söng hástöfum og tók þátt í öllu sem fram fór.

Fólk verður alveg undrandi þegar við segjum því að á Íslandi séu 13 jólasveinar og að börnin setji skóinn út í glugga 13 dögum fyrir jól og fá í hvert sinn einhvern glaðning, ef þau hafi verið góð. Hér er það þannig að jólasveinninn heitir father christmas, og það er hann sem gefur börnunum stærstu jólagjöfina á jóladag. Englendingar trúa því líka að jólasveinninn eigi heima í Finnlandi (meiri fávísin það), og það er draumur allra foreldra að geta farið með börnin í jólaferð til Finnlands og hitt jólasveininn, og ef þau eru heppin sjá þau norðurljósin í leiðinni.

Það verður að segjast að þarna voru Finnar sniðugir. Í raun er það alveg furðulegt að enginn hafi spáð í að markaðssetja jólaferðir til Íslands, búa til einhvern skemmtilegan pakka í kringum þetta. Ég er viss um að það væri hægt að hagnast vel á þessu því að foreldrar virðast vera tilbúnir að borga töluvert fyrir þetta. Það verður kannski hægt að gera þetta fyrir vestan, ef farið verður að fljúga beint til Ísafjarðar. Vá, maður er bara kominn með svaka viðskiptahugmynd, dríf mig í að fá einkaleyfi á hana :)

Í dag var okkur boðið í jóla- partý, hjá vinkonu Kötlu, það var bara mjög gaman, boðið var upp á pinnamat, jólaglögg og enska jólaköku, sem var greinilega búin að liggja vel í því. Amman á heimilinu spilaði á píanó og söng með krökkunum. Þetta var bara mög skemmtilegt og kom manni í jólaskapið. Í kvöld kveiktum við síðan á öðru kertinu á aðventukransinum og sungum jólalög og áttum notalega stund saman. Eigum bara eftir að gera það einn sunnudag í viðbót, og síðan komum við heim þann 19. des. Vona bara að við fáum hvít jól, er að verða ansi þreytt á rigningunni sem er búin að vera hér.

Kveðja frá öllum.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hei það var tími til komin að maður frétti eitthvað af þér kæra vinkona...sakna svo slúðurtímana okkar heheheh
Svo á bara að skella sér heim í Íslensk jól, sé þig vonandi þá
kveðja
Jóna Lind

Nafnlaus sagði...

Hæ hæ
Vildi bara koma því að að kartonið góða sem Valur vann hér í den er enn hérna. Hann geymir það sem gull. Hlakka til að sjá ykkur bið að heilsa í bili
kveðja Ása

Nafnlaus sagði...

Ekki að spyrja að því, Valur geymir vinninginn sinn vel, það er spurning að taka pakkann upp þegar hann verður kominn á elliheimilið, ha, ha.

Frábært að heyra í þér Jóna Lind, vona að við getum hittst um jólin.
En það er nú líka hægt að slúðra í gegnum netið. Eða þá bara að geyma þetta allt og fá síðan einn góðann pakka af slúðri þegar ég kem heim he,he.
kv. SRV